Hvað er prjónfesta og hvaða máli skiptir hún?
Prjónfesta (einnig kallað prjónþensla) er mæling á þéttleika prjóns. Það er best að mæla prjónfestu í sléttprjóni og flestar uppskriftir gera ráð fyrir því.
Til að mæla fjölda lykkja er mælt á breiddina og fjöldi umferða er mældur á hæðina. Best er að mæla 10 cm á breidd og hæð og telja lykkjur og umferðir innan þeirra marka. En ef prufan er minni má notast við 5 cm. Prjónfesta sem gefin er upp á garnmiðum er gerð í sléttprjóni.
Stundum er prjónfestan gefin upp í tilteknu mynsturprjóni í uppskriftum. Þá er mikilvægt að prjóna prufu í uppgefnu mynstri til að sannreyna prjónfestuna.
Það er mikilvægt að gera prjónfestuprufu áður en hafist er handa við að prjóna flík. Jafnvel þó að notað sé sama garn og uppskriftin gerir ráð fyrir, því fólk prjónar misjafnlega fast eða laust.
Hvað getur gerst ef prjónfestan stenst ekki? Þá verður flíkin annað hvort of lítil eða of stór og annað hvort of þétt prjónuð eða of laust prjónuð.
Prjónarar sem vilja laga prjónfestuna hjá sér – t.d. vilja venja sig á að prjóna fastar eða lausar alltaf – ættu að athuga hvernig haldið er um bandið sem prjónað er með, hvernig því er vafið um fingurna og hvernig hert er að nýprjónuðu lykkjunni. Almennt er þó mælt með því að skipta um prjónastærð til að fá þéttara eða lausara prjónles.
Ýmislegt hefur áhrif á prjónfestu
Tegund prjóna getur haft áhrif á prjónfestuna. Prjónar geta verið missleipir eða stamir. Heppilegra er að nota sams konar prjóna í alla flíkina, t.d ekki nota bambusprjóna í ermarnar og málmprjóna í bolinn. Það fer reyndar eftir garni sem notað er hversu áberandi munurinn getur orðið ef notaðar eru margar tegundir af prjónum í sömu flík.
Tegund prjóns getur einnig haft áhrif á prjónfestuna því flestir prjóna tvíbandaprjón þéttar en sléttprjón og brugðið prjón lausar en slétt. Þess vegna er oftast mælt með því að prjóna mynsturkafla í tvíbandaprjóni með grófari prjónum.
Lykkjufjöldi í hringprjóni hefur áhrif. Ef prjónuð er peysa með sléttprjóni þá getur það komið fyrir að bolurinn er á pari við prjónfestu uppskriftar, en ermarnar verða þéttari og þ.a.l. þrengri en til stóð. Þarna er lykkjufjöldinn í umferð að hafa áhrif. Einhverra hluta vegna hættir okkur til að prjóna færri lykkjur þéttar. Þetta endurspeglast líka í vettlingaprjóni en þá vilja þumlarnir verða þéttari er belgurinn. Til að bæta úr þessu þarf að breyta um prjónastærð, fara upp um kvart eða hálft númer á ermum og þumlum.
Aldur og dagsform getur haft áhrif. Það er ekki gefið að prjónfestan sé eins hjá manni alla prjónaævina. Hún getur breyst með aldrinum, það finna þær sem taka upp þráðinn á gömlu verkefni. Loks getur verið dagamunur á prjónfestunni eftir dagsforminu.
Prjónfestuprufa sparar tíma og kemur í veg fyrir mistök
Mörgum finnst tímasóun að gera prjónfestuprufu en þá skal hafa í huga að það þarf ekki mikil frávik til að breyta stærð peysu. Í meðalgrófleika af garni með 18 lykkjur á 10 cm í prjónfestu samkvæmt uppskrift eins (eins og t.d. léttlopinn) þarf ekki að muna nema einni lykkju upp eða niður í prjónfestu til að fullorðinspeysa verði 5 cm of víð eða of þröng. Og það munar oft um minna.
Ef uppgefin prjónfesta er 22 lykkur á 10 cm fyrir 4 mm prjóna og prjónfestan reynist 23-24 lykkjur (of margar lykkjur = of þétt) þá er ráðlagt að skipta yfir í 4,5 mm prjóna og gera aðra prufu. Ef prjónfestan reynist 20-21 lykkja (of fáar lykkjur = of laust) þá er ráðlagt að skipta yfir í 3,5 eða 3,75 mm prjóna og gera aðra prufu.
Einnig er talað um heklfestu í uppskriftum og þá er vísað til fjölda fastalykkja á 10 cm eða stuðla á 10 cm. Það er jafn mikilvægt að gera heklfestuprufu til að ákvarða stærð á heklunál sem nota skal.
Þegar gerð er prjónfestuprufa er ágætt að fitja upp rúmlega uppgefinn lykkjufjölda í prjónfestu og hafa 3-5 lykkjur hvoru megin þegar mælt er (prjónfestan er 18 lykkjur, fitja upp 24-28 lykkjur). Prjóna slétt prjón (mynsturprjón ef uppskriftin gerir ráð fyrir því) rúmlega 10 cm. Þá er auðveldara að fá nákvæma mælingu og þá er hægt að sjá í leiðinni hvernig prjónast úr garninu.
Ákjósanleg prjónfestuprufa
Uppskriftin segir t.d. 22 L = 10 cm á 4 mm prjóna. Það er sniðugt að gera prufu með mismunandi prjónastærðum. Byrja á 3,5 mm, þá 4 mm, svo 4,5 mm og jafnvel 5 mm ef þú prjónar fast.
Prjónfestuprufa: Fitjið upp uppgefinn lykkjufjölda í prjónfestu 22 lykkjur, bætið við 6 lykkjum til að hafa svigrúm til mælinga (verður áreiðanlegri mæling), bætið við 6 lykkjum fyrir kantlykkjur = 22 + 6 + 6 = 32 L. Prjónið ávallt fyrstu 3 L og síðustu 3 L slétt á réttu og röngu svo að jaðrarnir rúllist ekki upp. Prjónið fyrstu 4 umf slétt á réttu og röngu (garðaprjón). Eftir það eru miðjulykkjurnar (28 L) prjónaðar slétt á réttu og brugðnar á röngu. Prjónið um 5 cm með fyrstu prjónastærð, endið á umferð á réttunni. Prjónið eina umferð slétt á röngunni (garður á réttunni til að aðskilja prjónastærðir), skiptið yfir í næstu prjónastærð og endurtakið. Þegar síðasta kaflanum er lokið eru aftur prjónaðar 4 umferðir slétt eins og í byrjun. Fellið af (ekki ganga frá endum!).
Þvoið prufuna og leggið til þerris. Mælið síðan prjónfestuna á öllum köflum og sjáið hverju munar. Þetta er marktækasta og öruggasta leiðin til að mæla rétta prjónfestu. Sumt garn breytist aðeins í þvotti og við gerum alltaf ráð fyrir að þvo peysu eftir prjónið hvort sem er og þess vegna er líka betra að þvo prufuna.
Að gera prufu með mörgum prjónastærðum sparar einfaldlega tíma og sýnir okkur í leiðinni hvernig garnið kemur út í mismunandi þéttleika. Mikilvægt að skrá upplýsingar um garn, prjónastærð og prjónfestu á miða og festa við prufuna.
Það fer vissulega smá garn í prufu, en ef garnmagn í verkefni er tæpt þá má alltaf rekja upp prufuna og nýta garnið.
Skiptir umferðafjöldi máli?
Hvað ef umferðafjöldi er meiri eða minni en gefið er upp? Það er mikilvægara að lykkjufjöldi stemmi í prjónfestunni en umferðafjöldi. Ef lykkjufjöldinn stemmir eru líkur á því að umferðafjöldi geri það líka. En það er þó ekki algilt. Ef prjónaðar eru peysur með flóknu mynsturprjóni sem endurtekur sig á nokkurra umferða fresti þarf að gæta þess að það hafi ekki áhrif á sniðið á peysunni. Þetta á sérstaklega við um kaðlapeysur. Úrtökur í mitti eða við handveg þurfa að lenda á réttum stað miðað við stærð á peysunni. Þess vegna þarf að fylgjast vel með því og einblína ekki eingöngu á umferðafjölda í uppskriftinni heldur einnig sentímetrafjölda.
Guðrún Hannele tók saman fyrir ykkur sem viljið fræðast meira um undirstöðu prjóns.