Að kenna börnun að prjóna á jákvæðan hátt

Hér eru nokkrir punktar um prjónkennslu byggðir á grein eftir Laura Kelly úr veftímaritinu Knitting Daily.

Það er alltaf mikils virði þegar barn sýnir áhuga á að læra að prjóna eða aðrar hannyrðir. Hvort sem barnið er þitt eigið, barnabarn, nemandi eða nágranni er tækifærið til að kenna/leiðbeina barni prjón verðmætt. Þú ert ekki bara að miðla færni og þekkingu, þú ert að búa til minningu, tengsl og nýjan prjónara. Spurðu þá prjónara sem þú þekkir, þeir geta áreiðanlega sagt þér hver kenndi þeim að prjóna!

Þegar þú kennir barni að prjóna mundu þá að kennslan snýst meira um reynsluna við að prjóna frekar en prjóntæknina. Þú þarft þolinmæði frekar en kunnáttu og væntumþykju frekar en ítarlega þekkingu.
Hér eru nokkrir punktar sem geta hjálpað ykkur áleiðis og gert kennsluna skemmtilegri og árangursríkari.

Einbeittu þér að ferlinu, ekki tilbúnu verkefninu. Sem prjónari þá viltu að verkefnið þitt verði fullkomið. Þegar börn eiga í hlut á áherslan ekki að vera á fullkomnun. Markmiðið er að njóta prjónsins og lágmarka erfiðleika við prjónaskapinn. Ekki leiðrétta of mikið; hvettu frekar áfram. Barn sem nær að njóta ferlisins, snýr aftur og lærir smátt og smátt meira með aldri og reynslu. Njóttu áhugans sem börnin hafa á handavinnunni og leiðréttu mistök þeirra aðeins ef nauðsynlegt er, en helst þannig að þau sjái ekki til!

Gæði garnsins skiptir máli. Ef þú kaupir gæðagarn ertu að fjárfesta í menntun barnsins. Byrjaðu á góðu meðalgrófu ullargarni og prjónum (4-5 mm er hæfilegt). Þegar reynsla er komin á prjónaskapinn er sniðugt að gefa garn og fylgihluti í körfu til að hvetja áfram. Þá finnst viðkomandi barni að þú hafir trú á getunni!

Val er lykilatriði. Reyndu að leyfa barninu að taka þátt í valinu ef þess er kostur. Leyfðu þeim að velja liti og áhöld. Hannið verkefnin saman.

Hafðu kennslustundirnar stuttar og notalegar. Hafðu hverja kennslustund sérstaka einstaklingskennslu sem varir ekki lengur en í 30 til 60 mínútur. Leggðu kennsluverkefnið til hliðar eftir kennslustundina og taktu það fram aðeins á meðan þið eruð saman. Lærlingurinn verður spenntur að byrja aftur í næstu kennslustund og vill fá óskipta athygli þína.

Byrjið smátt. Prjónið eitthvað sem getur verið tilbúið eftir tvær kennslustundir. Tilfinningin að ljúka við verkefni er mikilvæg og hvetjandi. Prjónið litla ferninga, saumið saman og búið til lítil dýr fyllt með tróði. Hafið verkefnin stærri og flóknari eftir því sem reynslan safnast.

Sýndu árangrinum áhuga. Taktu ljósmynd af tilbúnu verkefninu og hengdu myndina upp. Mundu að afsaka ekki neinar ófullkomnar lykkjur eða lögun á verkefninu. Þessi reynsla snýst ekki um þig og þína hæfileika til að kenna/leiðbeina. Þetta snýst um að þú miðlir af hannyrðaþekkingu þinni.

Samantekt fyrir þá sem vilja miðla prjónkunnáttu sinni.

Guðrún Hannele

[email protected]

Myndirnar eru úr bókinni Kids Learn to Knit frá Rowan.