Vefjarefnin eru ýmist úr náttúrunni eða manngerð eða blanda af þessu
Garn er framleitt úr alls konar trefjum / þráðum úr dýra- og jurtaríkinu. Af dýrum fáum við nokkrar tegundir af ull t.d. lambsull (lambswool, merino wool), geitaull (mohair), angóruull eða fiðu (af kanínum), kasmírull (af angórugeitum), lamaull (af lamadýrum), alpakaull (af alpakadýrum) og kamelull (af kameldýrum). Listinn er engan veginn tæmandi.
Silki er einnig úr dýraríkinu unnið úr þráðum sem lirfa mórberjafiðrildisins spinnur utan um sig. Sameiginlegt með þráðum sem koma frá dýrum er að uppistaða þeirra er úr próteini.
Bómull, lín eða hör, ramí, bambus og fleira kemur úr jurtaríkinu. Uppistaðan í þeim þráðum er sellulósi.
Gerviefni eða manngerð efni eru t.d. akríl, nælon, polyester, metalþræðir og míkrófíber.
Hálfgerviefni eru þræðir sem eru unnir úr náttúrulegum efnum en búnir til í verksmiðju. Módal og viskós er t.d. unnið úr sellulósa og hefur því að mörgu leyti líka eiginleika og náttúruleg efni en þráðurinn sjálfur er manngerður.
Hvert vefjarefni hefur sína eiginleika og þau eru oft blönduð til að ná fram því besta í hverju hráefni. Dæmi um þetta er sokkagarn. Þá er notuð ull sem er mjúk og hlý og við hana er blandað næloni eða pólíester, sem er sterkur þráður til að styrkja sokkana og gera þá endingarbetri. Annað dæmi er míkrófíber (örfínn akrílþráður) sem er settur saman við ull til að gera hana mýkri og léttari.
Mikilvægt er að þekkja eiginleika helstu vefjarefna til að geta valið rétt garn í verkefnið eftir því hvernig á að nota flíkina. Öll vefjarefni hafa kosti og galla og þar er ekkert til sem heitir að eitt sé langbest því það er notkunin sem ræður.