Þessi prjónapistill birtist í vikublaðinu Fréttatíminn og síðar á heimasíðu Storksins árið 2014. Þegar ég las þetta yfir til endurskoðunar í tilefni af nýrri heimasíðu Storksins, sá ég að það þyrfti engu að breyta. Allt sem þarna stendur er í fullu gildi og eitthvað er þá hefur bara bætt í. Við sem prjónum vitum þetta, en hinir sem standa fyrir utan prjónaheiminn kannski ekki. Þið getið þá deilt þessu með þeim!

Með prjónakveðju, Guðrún Hannele

PRJÓNAPISTILL

Það hefur vart farið fram hjá nokkrum að áhugi á prjónaskap og öðrum hannyrðum hefur aukist til muna á Íslandi undanfarin misseri. Þeir sem prjóna eru sýnilegri en áður, það þykir ekki lengur merkilegt að sjá einhvern taka upp prjóna á kaffihúsi eða fundi. Sérstök prjónakaffi eru haldin víða í kaffihúsum, garnverslunum, samkomuhúsum og ekki síst í heimahúsum. Þessi félagslegi þáttur hefur svo haft áhrif á útbreiðsluna því það getur verið smitandi að sjá aðra prjóna og þannig breiðist prjónmenningin út hraðar en ella.

Margir tengdu þennan aukna áhuga á prjóni við kreppuna eða hrunið – nú hefði fólk meiri tíma til að sinna hannyrðum, fólk væri blankara og það væri hagkvæmt að prjóna. Það má segja að þetta sé rétt á vissan hátt, en staðreyndin er samt sú að endurvakning  hannyrða, handverks og hönnunar var hafin nokkru fyrir hrun. Hægt og sígandi var aukinn áhugi á öllu handgerðu að berast okkur að utan í tengslum við aðrar bylgjur eins og aukinn áhuga á lífrænt ræktuðum mat, “fair trade” eða að kaupa eitthvað sem framleiðandinn sjálfur fær sanngjarna greiðslu. Þá er “slow” menningin eða að gera hlutina hægt og hætta að ana í gegnum lífið á fljúgandi fart hluti af þessari þróun. Prjón er í eðli sínu hægfara iðja, líkt og brauðbakstur eða grænmetisræktun. Allt er þetta í takt við nýjan lífsstíl sem fólk er að tileinka sér í auknu mæli. Erlendir spekúlantar segja að þetta sé hægfara bylgja sem er enn að ryðja sér til rúms og feli í sér breyttan lífsstíl sem færi okkur nær náttúrunni, nær upprunanum og feli í sér aukna sjálfbærni. Þetta er sem sagt ekki bóla.

Tölur um aukna sölu á garni í Bandaríkjunum um miðjan síðasta áratug sýna að þar hafi orðið mikil fjölgun á prjónurum og aukningin var mest hjá fólki undir þrítugu. Það var svo bara tímaspursmál hvenær þessi aukni áhugi fyrir vestan bærist hingað. Austan megin við okkur höfum við svo lönd þar sem prjónmenning á djúpar rætur og alls þessa njótum við því margir íslenskir prjónarar geta notað uppskriftir  á fleiri en einu tungumáli.

Hér heima var jarðvegurinn góður því prjón hefir verið kennt í flestum grunnskólum landsins um árabil og við getum þakkað óeigingjörnu starfi textílkennara landsins sem gáfust ekki upp þótt á móti blési um tíma. Þær vissu betur en aðrir að þessa verkmenningu væri þess virði að varðveita og kenna börnum og ungmennum landsins. Auðvitað eru margar íslenskar konur sem hafa prjónað alla tíð og látið sér fátt um tískubylgjur finnast, en þær eru mun fleiri sem hafa tekið upp prjónana aftur eftir langt hlé og nýir prjónarar sem bæst hafa í hópinn undanfarin 3-4 ár eru mjög margir. Um það getur afgreiðslufólk í garnverslunum vitnað.

Auðvitað geta allir lært að prjóna hvenær sem er æviskeiðsins ef áhugi er fyrir hendi. En það er mun auðveldara að taka upp þráðinn ef handtökin eru kunnug frá fyrri tíð. Þetta er ekki ólíkt því og að læra að hjóla eða synda. Hugur og hönd þurfa að vinna saman. Þess vegna eiga svo margir á Íslandi auðvelt með að tileinka sér prjóntæknina þótt mörg ár séu liðin frá því litli ormurinn eða bangsinn var prjónaður í grunnskóla. Þó textílkennarar hafi sig allar við að kenna prjón í skólum og á námskeiðum þá er einnig ómetanlegt hve jafningjafræðslan nýtist vel í þessari iðju. Það eru ófáar ömmurnar og mömmurnar sem hafa kennt börnum sínum og barnabörnum að prjóna og það er í raun ómetanlegt.

Prjónið er líka ákaflega praktískt. Það er ekki amalegt að geta framleitt eigin flík og nýtt til þess tíma sem annars hefði farið til spillis. Mjög margir sem prjóna gera það m.a. vegna þess að þeir geta ekki setið auðum höndum og horft á sjónvarp. Um leið og eitthvað er komið á prjónana veitir það lífsfyllingu og tímanum er ekki sóað þó að horft sé á einhverja sápu. The Craft Yarn Council í Bandaríkjunum gerir árlega könnun á meðal þeirra sem kaupa garn. Árið 2011 sýndi könnunin þegar spurt var um ástæðu þess að viðkomandi prjónaði að sköpunarþörfin skoraði lang hæst og þessi ástæða var oftast nefnd hjá fólki undir 25 ára. Að hafa eitthvað fyrir stafni var í öðru sæti, búa til gjafir í þriðja og streitulosandi iðja rak lestina.

Viðhorfin til prjónaskapar hafa breyst. Gamla ímyndin um ömmuna í ruggustólnum að prjóna er að hverfa. Þetta er ekki lengur eingöngu kvennagrein, þótt konur séu í miklum meirihluta þeirra sem prjóna, en körlunum fjölgar. Við hafa tekið ungar konur og karlar sem nota prjón sem leið fyrir sköpunargleðina. Ungir prjónarar hafa líka margir hverjir notað prjón til að vinna gegn hefðbundinni neyslumenningu vesturlanda og hafna “einnota” hugsunarhættinum. Að skapa eitthvað sjálfur til eigin nota er leið sem margir velja til að sporna gegn fjöldaframleiðslunni sem samfélög á vesturlöndum eru talin gegnsýrð af. Á ensku er talað um DIY eða “do it your self” leiðina. Það á einnig við prjón og aðrar hannyrðir – að skapa sjálfur veitir innri ró og ánægju. Og ekki spillir ef hægt er að gleðja aðra með gjöf sem maður hefur búið til sjálfur.

Guðrún Hannele

[email protected]