Öll textílefni hnökra að einhverju marki. En innihaldið og veikleiki eða styrkur þráðarins ræður því hvort hnökrið dettur af eða festist við yfirborðið. Dæmi um þetta er gerviefnið akríl. Það á það til að hnökra og litlar hnökur-kúlur festast við flíkina á meðan ýmis konar ull hnökrar en hreinsar sig svo sjálf. Því skulið þið ekki örvænta þótt ullin ýfist eitthvað því oft hverfur þetta við fyrsta þvott eða við notkun.
Sum vefjarefni eru líklegri til að hnökra en önnur eins og bómull, akríl og ull. Pólíester, lín (hör) og silki eru minna líkleg til að hnökra. Samsetning garns getur haft áhrif. Ef um blöndu er að ræða þar sem annar þráðurinn er mun sterkari (harðari) en hinn veikari (linari) þá getur sterkari þráðurinn nuddað veikari þráðinn þannig að hann hnökri.
Garn getur hnökrað eða ýfst með tíð og tíma. Hvort það gerir það og hvenær ræðst af garninu og hvernig það er notað. Hnökur verður til við núning og þá festast stuttu þræðirnir sem standa út úr garninu hver við annan. Við það myndast hnökur. Því meiri núningur þeim mun meiri líkur á hnökri.
Margar tegundir af gæðaull eiga það til að hnökra lítillega fyrst eftir notkun en hætta því svo alveg. Notkunin sléttir yfirborðið. Almenna reglan er sú að því harðari eða þéttari sem snúðurinn er á garninu þeim mun minni líkur eru á því að það hnökri. Snúðhart garn hentar t.d. vel í sokka eða peysur sem á að nota mikið því þær verða slitsterkari og minna líklegar til að hnökra.
Ull með fíngerðum hárum er líklegri til að hnökra en ull með grófari hárum. Ástæðan er sú að lengri hár standa síður út úr garninu en styttri hár. Þess vegna hnökrar merínóull og kasmírull meira en grófari lambsull. Fíngerð ull er eftirsótt vegna mýktarinnar, hún stingur ekki, en hefur þennan annmarka að geta hnökrað eða ýfst.
Garnframleiðendur reyna oft hvað þeir geta til að lágmarka það að garn hnökri. Dæmi um þetta er merínóullargarn með ítölsku spuna. Þá er það spuninn á garninu sem hefur slétta áferð og takmarkar líkurnar á að það hnökri.
En það er fleira sem hefur áhrif á það hvort ull hnökrar eða ekki. Prjónaðar flíkur hnökra meira en ofnar. Skýringin er sú að vefnaður er oftast þéttari en prjónlesið. Af sömu ástæðu eru meiri líkur á að laust prjónuð flík hnökri en fast prjónuð flík.
Það hefur þó sennilega mest áhrif hvernig meðferð prjónlesið fær. Mikill núningur kallar á meira hnökur og það sést best á peysum að þær vilja hnökra meira undir höndum eða fremst á ermi. Þá getur annað efni sem nuddast upp við prjónlesið kallað fram hnökur sem annars myndi ekki gerast, a.m.k. ekki eins fljótt. Flísefni er gert úr gerviefni s.k. örtrefjum. Þessar örtrefjar eru harðar og ýfa upp ull við núning. Ef barn er í kerru og hefur undir sér flísteppi er líklegt að ullarpeysan og sokkarnir hnökri fljótt. Þetta á svo sem líka við þegar flísjakki er notaður yfir ullarpeysu eða ef úlpa er fóðruð með flísefni. Þessi tvö ólíku efni virðast ekki eiga samleið.
Almennt finnst fólki hnökur óæskilegt og það gerir flík óásjálega, eins og hún sé mikið notuð og slitin. Hnökur á þó ekki að hafa áhrif á notagildið. Þess vegna er eina ráðið oft að losa sig við það og til þess eru góð ráð. Nú fæst mjög gott áhald (Gleener) með þar til gerðum kambi sem strokið er yfir flíkina og þá losnar um hnökrið eða lónna sem svo er hægt að ná burtu með fatabursta á hinum enda áhaldsins. Það fylgja þrír misgrófir kambar sem skipt er um eftir grófleika peysunnar. Gleener fæst í Storkinum og hefur reynst vel, enginn hnífur og engar rafhlöður.
Guðrún Hannele tók saman til að svara spurningum margra viðskiptavina Storksins.