Velkomin á nýju vefsíðu Storksins! Hér munu birtast bloggfærslur frá okkur reglulega.

LESTARSOKKARNIR

Það er óhætt að segja að lestarsokkarnir góðu frá Finnlandi hafa orðið vinsælir á Íslandi. Það var hópur finnskra kvenna sem var að prjónanámskeiði í Storkinum á Laugaveginum fyrir þó nokkrum árum sem sögðu mér frá þessari sögu og hve sokkauppskriftin hefði farið víða í Finnlandi. Þær héldu að það væri nú í góðu lagi að þýða hana á íslensku því uppskriftin væri þegar orðin flökkuuppskrift þar í landi.

Það er ein stærð í uppskriftinni og ef sokkarnir eru prjónaðir með fínbandsgrófleika (4ply, fingering) á 2,5 mm prjóna þá passa þeir á 3- 6 mánaða gömul börn. Svo er einfalt að fara í léttbandsgrófleika (DK) og prjóna þá með 3 – 3,5 mm prjónum og þá passa þeir á um 1 árs gömul börn.

Margir prjónarar kunna uppskriftina þegar utanbókar og geta auðveldlega stækkað hana eftir þörfum.

SAGA SOKKANNA

Þessi uppskrift kemur frá Finnlandi. Upprunalegu sokkana varðveitir Terttu Latvala. Mamma hennar Kerttu var á lestarferðalagi frá Vaasa með Tuulu 2 mánaða gamalt stúlkubarn sitt. Þetta var í byrjun árs 1940 eða á stríðtímanum. Lestin stoppaði óvænt því það var búið að sprengja upp lestarteinana. Beint á móti henni í lestinni sat fullorðin kona, handavinnukennari á eftirlaunum. Henni þótti miður að barnið væri sokkalaust og tók til sinna ráða. Hún var í hvítri handprjónaðri ullarpeysu og ákvað að rekja hana upp og prjóna úr garninu sokka handa barninu á meðan á viðgerð lestarteinanna stóð.
Kerttu Latvala prjónaði nokkur hundruð pör af sams konar sokkum eftir upprunalegu sokkunum á meðan hún lifði. Alltaf varð til nýtt sokkapar þegar einhver í nærumhverfinu átti von á barni. Dóttir hennar Terttu Latvala hefur líka prjónað yfir 200 pör af sams konar sokkum.
Sokkarnir eru ekki bara fallegir, heldur tolla þeir einstaklega vel á fótum ungra barna.

LESTARSOKKARNIR SNERTU MARGA

Haustið 2007 birtist sokkauppskriftin og sagan í blaði og þá fór hún eins og eldur um sinu og er núna að finna á ótal bloggsíðum í Finnlandi. Sagan hefur snert marga og þúsundir sokkapara hafa verið prjónuð. M.a. hafa kvenfélög tekið sig til að prjónað par handa öllum nýfæddum börnum í þeirra héraði. Enda kemur sér vel að eiga góða, hlýja sokka á litlu börnin.

Þið getið hlaðið uppskriftinni niður með því að smella á þennan hlekk:

[download id=’26649′]

Góðar prjónastundir,

Guðrún Hannele