Almennt um námskeið Storksins
Storkurinn býður upp á fjölbreytt námskeið í prjóni, hekli, útsaumi og af og til bútasaumi. Námskeiðin eru skipulögð þannig að allir nemendur eiga að geta byggt ofan á fyrri þekkingu.
Kennarar Storksins eru með mikla reynslu og þekkingu hver á sínu sviði. Lágmarksfjöldi nemenda á námskeiðum er 6 og hámarksfjöldi er 10 á hverju námskeiði.
Á sumum námskeiðum er gert ráð fyrir að nemendur geri prufur til að læra ákveðna tækni. Þá eru efni í prufurnar innifalið í námskeiðsgjaldinu.
Við leggjum metnað í að vera með góð námskeiðsgögn sem nemendur geta stuðst við eftir að námskeiðinu lýkur. Öll gögn eru að sjálfsögðu innifalin í námskeiðsgjaldinu.
Það er nauðsynlegt á öllum námskeiðum að taka smá hlé, standa upp og teygja úr sér. Við bjóðum upp á kaffi og meðlæti svo allir hafi orku til að halda áfram eftir hléið.
Gert er ráð fyrir að nemendur hafi með sér þá prjóna og áhöld sem þeir eiga. Þeir sem vilja geta keypt það sem vantar í versluninni og fá allir nemendur 15% afslátt á meðan á námskeiði stendur (líka á milli tíma).
Eftirspurn eftir námskeiðum getur verið mismunandi á hverjum tíma. Við reynum að koma á móts við áhuga og þarfir nemenda okkar, en við erum alltaf til í að setja upp sérstök námskeið fyrir hópa.
Helstu námskeið hafa verið prjóntækni fyrir byrjendur og lengra komna í prjóni, sérhæfð námskeið í að prjóna sjöl, vettlinga- og sokka o.fl. Einnig námskeið þar sem nemendur læra að prjóna eftir enskum uppskriftum. Þá hafa verið á dagskrá nokkur peysuhönnunarnámskeið. Einnig námskeið fyrir byrjendur í prjóni og hekli, grunnnámskeið í hekli og leikfangahekl. Þá höfum við boðið upp á námskeið í útsaumi.
Við auglýsum námskeið haustannar í byrjun september og námskeið vorannar eftir miðjan janúar.